Starfsendurhæfing Norðurlands hlaut þann heiður í vikunni að vera valið eitt af fyrirmyndaverkefnum Evrópusambandsins í flokki nýsköpunarverkefna. Verkefnið var kynnt á 500 manna ráðstefnu í Brussel með þátttöku yfir þrjátiu landa. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Creation and Innovation“ .
Það er sú hugmyndafræði sem Starfsendurhæfingin byggir á sem var verðlaunuð fyrir tilraunaverkefnið Social Return (www.social-return.net) . Verkefnið var unnið á árunum 2004 – 2007 í samvinnu Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Framhaldsskólans á Húsavík, Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri og fjögurra annarra erlendra aðila frá Ítalíu, Hollandi, Litháen og Slóveníu. Verkefnið hefur áður hlotið Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalagsins í desember 2007 og í desember 2008 fékk verkefnið gæðaverðlaun frá Landsskrifstofu Menntaáætlunar Evrópusambandsins á Íslandi sem fyrirmyndarverkefni.
Hugmyndafræði Starfsendurhæfingar Norðurlands byggir á fjölþættri námstengdri endurhæfingu og samþættingu á velferðarþjónustu. Hugmyndafræðin miðar að því að veita þjónustu í nærumhverfi einstaklingsins og að hann axli ábyrgð á eigin endurhæfingu með virkri þátttöku í mótun hennar. Hugmyndafræðin byggir á samvinnu ólíkra stofnana og ólíkra sérfræðigreina sem veita einstaklingum þjónustu á sviði heilbrigðismála, félagsþjónustu og menntamála. Þessi aðferðafræði hefur skilað allt að 75% þátttakenda út í virkni að nýju hvort sem er í vinnu eða í frekara nám.